Friday, November 23, 2007

Áfengi-er það málið?

Það hafa nú sjálfsagt allir heyrt mikið og margt um skaðsemi áfengis, en ég ætla nú samt sem áður að rifja þetta aðeins upp hérna
-Áfengi skerðir dómgreindina...veldur því að maður getur gert mjög heimskulega hluti eða hluti sem maður sér eftir síðar
-Áfengi hefur mjög slæm áhrif á ýmis líffæri, til dæmis lifrina og hjarta-og æðakerfið
-Áfengi getur dregið úr testósterón framleiðslu og valdið getuleysi hjá karlmönnum (að ógleymdu tímabundnu getuleysi sem nánast alltaf fylgir mikilli ölvun)
-Áfengi eykur tíðni afbrota, sjálfsvíga og slysa
-Áfengi veldur þynnku og djammviskubiti daginn eftir

auk þess er náttúrulega ólöglegt að neyta áfengis fyrir 20 ára aldur...

Þrátt fyrir þetta allt saman eru, eins og við vitum, fjölmargir sem kjósa að drekka áfengi. Ef þú ert ein(n) af þeim þá eru hér nokkur góð ráð:

-Drekktu ekki of mikið í hvert sinn og ekki á tóman maga-yfirleitt skemmtilegra þegar maður amk man eftir kvöldinu
-Vertu ófeimin(n) við að segja hvenær sem er 'nei takk' við áfengi
-Taktu „áfengisfrí“ – Prófaðu að sleppa áfengi alfarið um einhvern tíma -ef maður getur það ekki þá gæti verið um vandamál að ræða...
-Drekktu áfengi að hámarki eitt kvöld um helgar
-Ekki þrýsta á aðra í kringum þig að neyta áfengis, allir hafa rétt á að ákveða það sjálfir
-Ekki nota áfengi þegar þér líður illa, -áfengi leysir engan vanda, en getur hins vegar skapað ný vandamál!

Gott er að hafa í huga að:
-því sterkari sem drykkur er, því minna þarf maður af honum til að verða ölvaður og missir því fyrr stjórnina
-því hraðar sem maður drekkur því hraðar finnur maður fyrir áhrifunum og missir því fyrr stjórnina
-áhrif áfengis verða mun meiri og verri, frekar uppköst og vanlíðan, ef drukkið er á fastandi maga
-áfengi hefur meiri áhrif á stelpur en stráka, stelpur þola að meðaltali um 30% minni vínanda en strákar. Einnig þolir fólk minna þeim mun minna og/eða léttara sem það er.

Áfengi er sem sagt óhollt og heilsuspillandi, getur látið mann verða sér til skammar, setur mann í hættu varðandi afbrot, árásir og slys og svo er það líka rándýrt! Ef maður ætlar samt sem áður að neyta áfengis er eins gott að gera það á ábyrgan hátt og vera tilbúinn til að taka afleiðingunum, hverjar sem þær nú eru.

Ef þið hafið einhverjar spurningar um þetta (eða eitthvað annað), endilega sendið tölvupóst á spurduragsy@gmail.com

Góða skemmtun, með eða án áfengis,
kveðja

Ragnhildur


Heimildir: Stuðst við bæklinginn 'Hvað veist þú um áfengi' frá Lýðheilsustöð og fræðslu á vefsíðu Lýðheilsustöðvar og doktor.is

No comments: