Friday, November 23, 2007

Áfengi-er það málið?

Það hafa nú sjálfsagt allir heyrt mikið og margt um skaðsemi áfengis, en ég ætla nú samt sem áður að rifja þetta aðeins upp hérna
-Áfengi skerðir dómgreindina...veldur því að maður getur gert mjög heimskulega hluti eða hluti sem maður sér eftir síðar
-Áfengi hefur mjög slæm áhrif á ýmis líffæri, til dæmis lifrina og hjarta-og æðakerfið
-Áfengi getur dregið úr testósterón framleiðslu og valdið getuleysi hjá karlmönnum (að ógleymdu tímabundnu getuleysi sem nánast alltaf fylgir mikilli ölvun)
-Áfengi eykur tíðni afbrota, sjálfsvíga og slysa
-Áfengi veldur þynnku og djammviskubiti daginn eftir

auk þess er náttúrulega ólöglegt að neyta áfengis fyrir 20 ára aldur...

Þrátt fyrir þetta allt saman eru, eins og við vitum, fjölmargir sem kjósa að drekka áfengi. Ef þú ert ein(n) af þeim þá eru hér nokkur góð ráð:

-Drekktu ekki of mikið í hvert sinn og ekki á tóman maga-yfirleitt skemmtilegra þegar maður amk man eftir kvöldinu
-Vertu ófeimin(n) við að segja hvenær sem er 'nei takk' við áfengi
-Taktu „áfengisfrí“ – Prófaðu að sleppa áfengi alfarið um einhvern tíma -ef maður getur það ekki þá gæti verið um vandamál að ræða...
-Drekktu áfengi að hámarki eitt kvöld um helgar
-Ekki þrýsta á aðra í kringum þig að neyta áfengis, allir hafa rétt á að ákveða það sjálfir
-Ekki nota áfengi þegar þér líður illa, -áfengi leysir engan vanda, en getur hins vegar skapað ný vandamál!

Gott er að hafa í huga að:
-því sterkari sem drykkur er, því minna þarf maður af honum til að verða ölvaður og missir því fyrr stjórnina
-því hraðar sem maður drekkur því hraðar finnur maður fyrir áhrifunum og missir því fyrr stjórnina
-áhrif áfengis verða mun meiri og verri, frekar uppköst og vanlíðan, ef drukkið er á fastandi maga
-áfengi hefur meiri áhrif á stelpur en stráka, stelpur þola að meðaltali um 30% minni vínanda en strákar. Einnig þolir fólk minna þeim mun minna og/eða léttara sem það er.

Áfengi er sem sagt óhollt og heilsuspillandi, getur látið mann verða sér til skammar, setur mann í hættu varðandi afbrot, árásir og slys og svo er það líka rándýrt! Ef maður ætlar samt sem áður að neyta áfengis er eins gott að gera það á ábyrgan hátt og vera tilbúinn til að taka afleiðingunum, hverjar sem þær nú eru.

Ef þið hafið einhverjar spurningar um þetta (eða eitthvað annað), endilega sendið tölvupóst á spurduragsy@gmail.com

Góða skemmtun, með eða án áfengis,
kveðja

Ragnhildur


Heimildir: Stuðst við bæklinginn 'Hvað veist þú um áfengi' frá Lýðheilsustöð og fræðslu á vefsíðu Lýðheilsustöðvar og doktor.is

Wednesday, November 21, 2007

Mataræði!

Matur er frábær! Það er roooosalega gott að borða góðan mat, og flestir eru nú þannig að varla geta komið saman fleiri en tveir einstaklingar án þess að boðið sé uppá eitthvað að narta....
En matur er auðvitað líka mjög mikilvægur, veitir orku og nauðsynleg næringarefni og heldur okkur ferskum í því sem við þurfum að gera

En hvað á að borða?
Það er svolítið orðið þannig að maður getur varla opnað blað eða kveikt á sjónvarpinu án þess að heyra umræðu um að maður eigi ekki að borða þetta eða hitt, megrun þetta og hydroxycut hitt...með allar þessar misvísandi rugl-upplýsingar er ekki furða þó maður viti bara ekkert hvað maður má láta ofan í sig lengur!

Málið er hins vegar furðu einfalt: Borða fjölbreytt, borða bara venjulegan mat og nóg af honum! En svona til frekari leiðbeiningar koma hér nokkrir punktar um mataræði:

-Mikilvægast er að hafa fæðuna sem fjölbreyttasta. Engin ein fæðutegund veitir öll næringarefnin sem við þurfum, hvort sem það er skyr, ávextir eða pizza. Nauðsynlegt er að borða eitthvað af öllu, grænmeti, ávexti, kjöt, fisk, korn og jafnvel fitu!

-Borða grænmeti og ávexti daglega. Þið hafið heyrt þetta, 5 á dag! Það hljómar kannski mikið, en er í rauninni ekkert mál, bara hreinn ávaxtasafi með morgun- og hádegismatnum, láta salat fylgja hádegis- og kvöldmatnum og fá sér eitt epli eða banana um miðjan daginn...voilá, 5 stykki komin! Ekkert mál að finna sér grænmeti og ávexti sem maður fílar, mitt uppáhald er rauð paprika, gúrka, epli, bananar og ber...

-Borða fisk! Tvisvar í viku! Hljómar það ekki nógu spennandi? Það er samt enginn vandi að finna sér fiskrétti við sitt hæfi. Fiskbúðin Fiskisaga er til dæmis með rosa mikið úrval af alls konar fiskréttum, ekki bara gamla góða soðna ýsan og plokkarinn. Einnig má borða reyktan lax, silung eða síld ofan á brauð, mjög gott!
Og ef þið bara engan veginn meikið fisk, fáið ykkur þá að minnsta kosti lýsi eða lýsisperlur, omega-3 fitusýrurnar eru víst alveg lykilinn að góðu lífi!

-Fá sinn skerf af trefjum, til dæmis úr trefjaríku morgunkorni, grófu brauði, brúnum hrígsgrjónum og heilhveitipasta. Þeir sem ekki borða trefjar fá harðlífi og það vill nú enginn :s

-Tvö mjólkurglös á dag, eða tvö jógúrt, skyr, ost eða whatever...bara fá kalkið sitt daglega! Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir stelpurnar, annars lendum við bara í beinþynningu beint eftir menntó, frekar glatað! Ef venjuleg mjólk fer illa í ykkur þá bara svissiði yfir í sojamjólk!

-Passa að fá líka fitu, en þá frekar mjúka fitu en harða. Til dæmis nota ólífuolíu á mat og olivio eða eitthvað þannig jurtasmjör frekar en smjör. En alls ekki kötta fituna út, maður verður að fá sinn skammt af svoleiðis eins og öðru!

-Hreyfa sig í klukkutíma daglega! Þarf ekki að vera flókið, bara kortersrölt í og úr skólanum, sund með félögunum í hálftíma um eftirmiðdaginn eða trylltur dans um kvöldið...klukkutíminn er kominn! Ekkert mál!

-Nammi nammi...má það? Örvæntið ekki, því ef maður borðar góðan, hollan og fjölbreyttan mat og hreyfir sig reglulega má maður alveg leyfa sér nammi og/snakk í hófi. Sumum hentar best að hafa bara einn nammidag í viku, öðrum finnst betra að fá sér bara nammi þegar þeir eru í þannig stuði, hver og einn verður bara að finna sér hvað er best. Mín aðferð er að borða alltaf einn ávöxt, epli eða banana, áður en ég fæ mér nammi, þá finnst mér ég ekki þurfa að borða jafn mikið nammi og minni líkur eru á að ég borði á mig nammigat!


Vonandi hjálpar þetta! Ef þið hafið einhverjar spurningar um mataræði eða bara hvað sem ykkur dettur í hug, endilega sendið tölvupóst á spurduragsy@gmail.com
Kveðja,
Ragsy!

Heimildir: Stuðst við bæklinginn 'Ráðleggingar um mataræði og næringarefni' frá Lýðheilsustöð, gefinn út árið 2006

Tuesday, November 20, 2007

Ný síða!

Sæl öll sömul!

Þetta eru þá fyrstu skrifin á þessari síðu, sem á vonandi eftir að nýtast sem flestum. Hér mun ég birta ýmsan fróðleik um kynlíf, sjálfsmynd, heilbrigði og heilsufar, sambandsráð og allt milli himins og jarðar. Ef þið eruð með spurningu eða vantar ráðgjöf endilega ekki hika við að senda tölvupóst á spurduragsy@gmail.com
Ég mun leggja mig fram um að svara tölvupóstum innan þriggja daga frá því að þeir berast. Fullum trúnaði er að sjálfsögðu heitið. Ég mun aldrei birta fyrirspurnirnar hér á síðunni nema hafa fengið til þess leyfi hjá þeim sem sendi, og að sjálfsögðu er þetta allt saman nafnlaust.
Ef einhver fyrirspurn berst sem ég veit ekki svarið við mun ég leggja mig alla fram um að leita svara annars staðar. Einnig get ég ráðlagt hvar þið getið sjálf fundið upplýsingar um ýmis málefni.

Svo að bara....byrjið að spyrja!!

kveðja
Ragsy