Tuesday, December 11, 2007

Sannleikurinn um megrunar- og brennslutöflur

Við lifum á tímum mikilla öfga, og er holdafar engin undantekning. Þeir feitu eru stöðugt að verða feitari og þeir mjóu mjórri. Stöðugt er hamrað á því í fjölmiðlum og almennt í samfélaginu að við þurfum stöðugt að vera í megrun og vinna að því að verða grennri og meira fit. Þar sem fyrirmyndirnar sem við höfum fyrir augunum eru oft óraunhæfar eru margir sem nýta sér ýmsar brennslu- og megrunarpillur í baráttunni fyrir hinum fullkomna líkama. En eru þessar töflur öruggar?

Megrunarlyf eru oftast gerð til þess að nota með góðri hreyfingu og hollu fæði. Almennt er lyfjameðferðum við offitu fyrst beitt ef megrun hefur ekki náð tilsettum árangri og BMI (body mass index) viðkomandi er hærri en 30, en ef einhverjir áhættusjúkdómar eru til staðar, eins og sykursýki, hjartasjúkdómar eða háþrýstingur, er stundum skoðuð meðferð við BMI 27. Lyf eru því ekki ætluð fyrir fólk í eða rétt yfir kjörþyngd. Kjörþyngd er BMI 20-24.9, og er hægt að reikna út sinn BMI stuðul til dæmis hér

Megrunar- og brennslulyf hafa, eins og önnur lyf, ýmsar aukaverkanir. Þær algengustu eru svefntruflanir, ógleði og meltingarvandamál, streita, kvíði og skjálfti, og getur þetta valdið miklum óþægindum. Einnig getur fylgt hækkaður blóðþrýstingur og og hár púls.

Green tea töflur eru vinsælar til grenningar og heilsubótar. Það er satt að grænt te er í hófi sagt bæta heilsu og hafa margvísleg góð áhrif. Hins vegar sýna rannsóknir að í miklu magni getur grænt te verið beinlínis skaðlegt heilsunni og meðal annars valdið lifrar- og nýrnaskemmdum. Þegar teknar eru þessar green tea töflur er gífurlegar mikil hætta á þessu þar sem í þeim er svo mikið magn af virka efninu, og hafa því miður margir brennt sig á þessu og fengið lifrarbólgu á unga aldri í kjölfar notkunar á green tea töflum.

Hydroxycut er annað vinsælt brennsluefni, mikið auglýst með fögrum loforðum um færri kíló og aukið hreysti. Hins vegar segja sérfræðingar að fátt bendi til þess að þær virki á þann hátt sem framleiðendur lýsa, og að þær rannsóknir sem framleiðendurnir birta á heimasíðu lyfsins til að sýna fram á virkni þess séu gallaðar. Auk þess geta töflurnar beinlínis verið skaðlegar. Algengar aukaverkanir af töflunum eru skapstyggð, óróleiki og eirðarleysi og svefntruflanir. Aðal virku efnin í hydroxycut eru Ma Huang, sem er jurtaform efedríns, Guarana Extract sem er koffín, og White Willow Bark, sem er í rauninni bara aspirín eða blóðþynnandi. Rannsóknir hafa sýnt að þegar þessi virku efni eru notuð saman getur það valdið skaða á hjarta- og æðakerfinu, til dæmis skemmda á hjartalokunum, slagæðaskemmdum og háþrýstingi og einnig geta komið fram taugaskemmdir.

Lokaniðurstaðan er því sú að megrunar- og brennslutöflur virðast ekki virka eins og framleiðendur lofa, að minnsta kosti af rannsóknum að dæma, og geta verið mjög skaðlegar heilsunni. Telji maður sig þurfa að léttast er mun betra að gera það með því að auka hreyfinguna og borða hollari fæðu. Best er að grennast hægt og rólega því þá eru minni líkur á að allt bætist aftur á mann.

En auðvitað er bara langbest að hugsa ekki um að grennast heldur bara að líða vel og vera sáttur í eigin skinni!

Ef þú hefur spurningar varðandi megrun, megrunartöflur eða hvað sem er annað, endilega sendu mér póst á spurduragsy@gmail.com!

kveðja
Ragsy


Heimildir: Stuðst upplýsingar af mbl.is, doktor.is, eulyf.is, newscientist.com, epinions.com, cbc.ca, medicalnewstoday.com og greinina The Ups and Downs of Diet Pills eftir Erin Donnelly, birt á vefnum body-philosophy.com

No comments: