Thursday, December 13, 2007

Klám-hvað er svona slæmt við það?

Klám er stöðugt að verða meira áberandi í samfélaginu okkar, og með internetinu er líka mun auðveldara að nálgast það. Margir skoða klám sér til ánægju og örvunar, og ætla ég svo sem ekkert að vera að dæma það.

Hins vegar er mjög mikilvægt að muna að klám er alls ekki góð heimild um hvernig kynlíf á að vera í raun og veru. Klám getur reyndar gefið mjög brenglaða mynd af kynlífi og því mikilvægt að taka því með fyrirvara.

Til hvers er klám?

Klám og erótískt efni hugsað til að örva fólk kynferðislega. Einhverjir nota það sem eins konar hjálpartæki við sjálfsfróun, og aðrir horfa á klám með maka sínum til að krydda upp á kynlífið.

Það er í sjálfu sér ekkert rangt við að horfa á klám og óþarfi að skammast sín fyrir það. Hins vegar þarf að horfa á klám með gagnrýnum augum og alls ekki gera ráð fyrir að kynlíf í raunveruleikanum sé eitthvað líkt því sem maður sér í klámmyndum. Það er í raun álíka fjarstæðukennt að halda að klám sýni raunhæfa mynd af kynlífi eins og að telja að sjónvarpsþátturinn Nip/Tuck gefi raunsanna mynd af lífi og starfi meðal lýtalækna, eða House gefi góða mynd af starfi lækna. Klám fellur að sömu lögmálum og kvikmyndir og sjónvarpsþættir að því leyti að mest er hugsað um hvað lítur vel út á filmu og hvað selst, en lítil áhersla lögð á að endurspegla heiminn eins og hann er í raun og veru.

Dæmi um röng skilaboð í klámi:

-Risatyppi og melónubrjóst
Margir klámmyndaleikarar eru karlmenn sem eru gífurlega vel vaxnir niður á við eða konur með sílíkonbrjóst uppá herðar. Það er nauðsynlegt að vera meðvitaður um að þetta fólk er ekki raunhæfar fyrirmyndir fyrir okkur almúgann. Það er því algjör óþarfi að vera með minnimáttarkennd þó limurinn sé ekki eins og á hrossi eða brjóstin séu svo stór að hægt sé að nota þau í stað eldhúsborðs.
-Konur fá fullnægingu samstundis og án mikillar fyrirhafnar.
Í klámmyndum virðast konurnar oft byrjaðar að stynja nánast áður en bólfélaginn hefur komið við þær. Einnig fá þær fullnægingu við furðulegustu aðgerðir, til dæmis við það að bólfélaginn slái oft og ört með flötum lófa á snípinn á þeim. Raunin er hins vegar sú að fæstar konur myndu fá nokkuð útúr slíkri meðferð og allar líkur á að þær meiði sig frekar en að þær njóti þess.
-Ýmis konar óhefðbundið kynlíf sýnt sem sjálfsagður hlutur.
Í klámmyndum er mjög algengt að sjá threesome eða hópkynlíf, endaþarmsmök, S&M og fleira sýnt sem sjálfsagðan hlut. Staðreyndin er hins vegar sú að aðeins takmarkaður hópur nýtur slíks kynlíf. Vissulega eru þeir til sem vita ekkert betra en endaþarmsmök, njóta þess að stunda kynlíf með maka sínum og 5 til viðbótar eða vilja helst af öllu vera bundnir og barðir í kynlífinu. Þarna er hins vegar um að ræða lítinn hóp. Áður en kynlíf af þessu tagi er stundað er vissara að næla sér í reynslu í hefðbundnu kynlífi, kynnast sjálfum sér og sínum löngunum vel og gæta þess vandlega að sá sem maður stundar kynlíf hafi einnig löngun til að reyna þessa hluti. Það er alls ekki gott ef strákur hefur til dæmis horft á klámklippu á netinu og heimtar svo endaþarmsmök með kærustunni eins og hann sá í myndinni, eins og það sé sjálfsagður hlutur. Hins vegar er sjálfsagt að prófa sig áfram hafi báðar aðilar áhuga á því, svo lengi sem það er gert á yfirvegaðan hátt, og með heiðarleika og traust í fyrirrúmi
endaþarmsmök normal
-Harkalegt kynlíf og nauðganir gerðar eðlilegar og jafnvel upphafðar
Því miður hefur skapast töluvert öflugur iðnaður í kringum svokallað hardcore klám, en það er gjarnan gróft, sýnir oft karlmanninn í mikilli valdastöðu og er gjarnan niðurlægjandi fyrir konuna. Karlmaðurinn rífur í hár konunnar og slær hana, og í sumum tilvikum er beinlínis verið að líkja eftir nauðgun. Nauðgun og ofbeldi er að sjálfsögðu ekkert gamanmál og alls ekki sexí. Það er mjög varhugavert að fara að líta á hártoganir, flengingar, barsmíðar og niðurlægjandi orð sem sjálfsagðan part af kynlífi. Kynlíf ætti alltaf að byggjast á trausti og virðingu milli þeirra sem þess njóta saman, og á fyrst og fremst að einkennast af væntumþykju og vellíðan.

Það er alltaf mikilvægt að horfa á kvikmyndir og sjónvarp með gagnrýnum augum og trúa ekki öllu eins og nýju neti. Klámmyndir eru þar engin undantekning. Ef þú vilt fá upplýsingar um raunverulegt kynlíf mæli ég eindregið með því að þú leitir annað en á klámsíður internetsins. Til dæmis væri góð hugmynd að senda spurningar á spurduragsy@gmail.com

kveðja
Ragnhildur

Tuesday, December 11, 2007

Sannleikurinn um megrunar- og brennslutöflur

Við lifum á tímum mikilla öfga, og er holdafar engin undantekning. Þeir feitu eru stöðugt að verða feitari og þeir mjóu mjórri. Stöðugt er hamrað á því í fjölmiðlum og almennt í samfélaginu að við þurfum stöðugt að vera í megrun og vinna að því að verða grennri og meira fit. Þar sem fyrirmyndirnar sem við höfum fyrir augunum eru oft óraunhæfar eru margir sem nýta sér ýmsar brennslu- og megrunarpillur í baráttunni fyrir hinum fullkomna líkama. En eru þessar töflur öruggar?

Megrunarlyf eru oftast gerð til þess að nota með góðri hreyfingu og hollu fæði. Almennt er lyfjameðferðum við offitu fyrst beitt ef megrun hefur ekki náð tilsettum árangri og BMI (body mass index) viðkomandi er hærri en 30, en ef einhverjir áhættusjúkdómar eru til staðar, eins og sykursýki, hjartasjúkdómar eða háþrýstingur, er stundum skoðuð meðferð við BMI 27. Lyf eru því ekki ætluð fyrir fólk í eða rétt yfir kjörþyngd. Kjörþyngd er BMI 20-24.9, og er hægt að reikna út sinn BMI stuðul til dæmis hér

Megrunar- og brennslulyf hafa, eins og önnur lyf, ýmsar aukaverkanir. Þær algengustu eru svefntruflanir, ógleði og meltingarvandamál, streita, kvíði og skjálfti, og getur þetta valdið miklum óþægindum. Einnig getur fylgt hækkaður blóðþrýstingur og og hár púls.

Green tea töflur eru vinsælar til grenningar og heilsubótar. Það er satt að grænt te er í hófi sagt bæta heilsu og hafa margvísleg góð áhrif. Hins vegar sýna rannsóknir að í miklu magni getur grænt te verið beinlínis skaðlegt heilsunni og meðal annars valdið lifrar- og nýrnaskemmdum. Þegar teknar eru þessar green tea töflur er gífurlegar mikil hætta á þessu þar sem í þeim er svo mikið magn af virka efninu, og hafa því miður margir brennt sig á þessu og fengið lifrarbólgu á unga aldri í kjölfar notkunar á green tea töflum.

Hydroxycut er annað vinsælt brennsluefni, mikið auglýst með fögrum loforðum um færri kíló og aukið hreysti. Hins vegar segja sérfræðingar að fátt bendi til þess að þær virki á þann hátt sem framleiðendur lýsa, og að þær rannsóknir sem framleiðendurnir birta á heimasíðu lyfsins til að sýna fram á virkni þess séu gallaðar. Auk þess geta töflurnar beinlínis verið skaðlegar. Algengar aukaverkanir af töflunum eru skapstyggð, óróleiki og eirðarleysi og svefntruflanir. Aðal virku efnin í hydroxycut eru Ma Huang, sem er jurtaform efedríns, Guarana Extract sem er koffín, og White Willow Bark, sem er í rauninni bara aspirín eða blóðþynnandi. Rannsóknir hafa sýnt að þegar þessi virku efni eru notuð saman getur það valdið skaða á hjarta- og æðakerfinu, til dæmis skemmda á hjartalokunum, slagæðaskemmdum og háþrýstingi og einnig geta komið fram taugaskemmdir.

Lokaniðurstaðan er því sú að megrunar- og brennslutöflur virðast ekki virka eins og framleiðendur lofa, að minnsta kosti af rannsóknum að dæma, og geta verið mjög skaðlegar heilsunni. Telji maður sig þurfa að léttast er mun betra að gera það með því að auka hreyfinguna og borða hollari fæðu. Best er að grennast hægt og rólega því þá eru minni líkur á að allt bætist aftur á mann.

En auðvitað er bara langbest að hugsa ekki um að grennast heldur bara að líða vel og vera sáttur í eigin skinni!

Ef þú hefur spurningar varðandi megrun, megrunartöflur eða hvað sem er annað, endilega sendu mér póst á spurduragsy@gmail.com!

kveðja
Ragsy


Heimildir: Stuðst upplýsingar af mbl.is, doktor.is, eulyf.is, newscientist.com, epinions.com, cbc.ca, medicalnewstoday.com og greinina The Ups and Downs of Diet Pills eftir Erin Donnelly, birt á vefnum body-philosophy.com